Beint í efni

Innkaupastefna

Innkaupastefna þessi gildir fyrir öll innkaup hjá Vatnajökulsþjóðgarði vegna fjárfestinga eða kaupa á vörum, endursöluvörum og þjónustu innan þjóðgarðsins.

Innkaupastefnan er byggð á lögum og reglugerðum um opinber innkaup og innkaupastefnu ríkisins og innkaupastefnu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Í Stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs eru sett eftirfarandi þrjú meginmarkmið í starfi þjóðgarðsins sem innkaupastefnan tekur mið af.

Að vernda, viðhalda og þróa ...

Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs leitast við, með stefnu sinni, ákvörðunum og í framkvæmd, að tryggja verndun náttúru og menningarminja og viðhald gæða og sérstöðu Vatnajökulsþjóðgarðs.

Að upplifa ...

Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs leitast við, með stefnu sinni, ákvörðunum og í framkvæmd, að tryggja að það sé einstök upplifun að heimsækja og dvelja í Vatnajökulsþjóðgarði, sem gestur, sem starfsmaður eða vísindamaður og að heimamenn telji það til aukinna gæða að búa í þjóðgarðinum eða á áhrifasvæði hans.

Að skapa ...

Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs leitast við, með stefnu sinni, ákvörðunum og í framkvæmd, að ýta undir að gæði og sérstaða þjóðgarðsins sé nýtt til frekari eflingar atvinnu og búsetu á svæðinu, til nýsköpunar í atvinnulífi, til listsköpunar og miðlunar á menningu svæðisins.