Beint í efni

Öryggi ferðafólks og Mannamót

Vikan sem leið var viðburðarík fyrir starfsfólk þjóðgarðsins og það tók þátt í tveimur viðburðum. Um er að ræða málstofu á vegum Ferðamálastofu og Félags fjallaleiðsögumanna á Íslandi (AIMG) annars vegar og Mannamót Markaðsstofanna hins vegar.

23. janúar 2023
Starfsfólks Vatnajökulsþjóðgarðs á Mannamóti 2023: Sigrún Sigurgeirsdóttir umsjónarmaður verslunar í Skaftafelli, Steinunn Hödd Harðardóttir þjóðgarðsvörður á suðursvæði, Þórhallur Jóhannsson yfirlandvörður og Guðrún Stefanía Vopnfjörð Ingólfsdóttir yfirlandvörður. Mynd: Sigrún Sigurgeirsdóttir.
Starfsfólks Vatnajökulsþjóðgarðs á Mannamóti 2023: Sigrún Sigurgeirsdóttir umsjónarmaður verslunar í Skaftafelli, Steinunn Hödd Harðardóttir þjóðgarðsvörður á suðursvæði, Þórhallur Jóhannsson yfirlandvörður og Guðrún Stefanía Vopnfjörð Ingólfsdóttir yfirlandvörður. Mynd: Sigrún Sigurgeirsdóttir.

Miðvikudaginn 18. janúar var haldin málstofa á Grand Hótel í Reykjavík um öryggi ferðamanna við krefjandi aðstæður. Steinunn Hödd Harðardóttir þjóðgarðsvörður á austurhluta suðursvæðis og Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir sviðsstjóri stjórnsýslusviðs töluðu á málstofunni um tækfærin sem leynast í Vatnajökulsþjóðgarði, öryggismál og atvinnustefnu Vatnajökulsþjóðgarðs.

Upptöku frá streyminu má nálgast hér. Fyrirlestur Steinunnar og Hönnu Kötu hefst á mínútu 70 og tekur um 15 mínútur.

Mannamót Markaðsstofa allra landshluta var haldinn fimmtudaginn 19. janúar í Kórnum í Kópavogi. Vatnajökulsþjóðgarður hefur tekið þátt undanfarin ár og hefð skapast hjá starfsfólki að skipta þátttöku á milli svæða. Í ár var komið að starfsfólki Skaftafells, Jökulsárlóns og Hafnar að kynna sig og þjóðgarðinn allan. Markmið og tilgangur viðburðarins er að skapa vettvang þar sem þjónustuaðilar og fyrirtæki á landsbyggðinni fá tækifæri til að kynna sína sig og vöruframboð sitt fyrir ferðaþjónustuaðilum sem staðsettir eru á höfuðborgarsvæðinu.

Gestir Vatnajökulsþjóðgarðs eru margir viðskiptavinir íslenskrar ferðaþjónustu. Gott samtal og þekking milli ferðaþjónustunnar og þjóðgarðsins skiptir því miklu máli til að ná að uppfylla markmið þjóðgarðsins um verndun náttúru- og menningarminja, aðgengi, upplifun og fræðslu um náttúru- og menningarverðmæti hans.

Skjáskot úr fyrirlestri Steinunnar Haddar Harðardóttur, þjóðgarðsvarðar á suðursvæði, á málstofu um "Öryggi ferðamanna við krefjandi aðstæður".

Skjáskot úr fyrirlestri Jóhönnu Katrínar Þórhallsdóttur, sviðsstjóra á sviði stefnu og starfshátta, á málstofu um "Öryggi ferðamanna við krefjandi aðstæður".