Beint í efni
Ásbyrgi
Á8

Kúahvammshringur

Þessi gönguleið býður upp á stórfenglegt útsýni yfir Ásbyrgi og nyrðri hluta Jökulsárgljúfra. Í Klöppum eru einstakir skessukatlar og ummerki hamfaraflóða.

Vegalengd
12 km
Áætlaður tími
4-5 klst
Erfiðleikastig
Krefjandi
Hækkun
x m
Tegund
Hringleið
Upphafstaður
Við Gljúfrastofu

Gönguleiðin hefst við Gljúfrastofu í Ásbyrgi. Hægt er að fara tvær leiðir til að komast upp á barm Ásbyrgis. Auðveldari leiðin er að fara austur yfir golfvöllinn og beygja til suðurs á gatnamótum austan golfvallar, þaðan liggur leiðin upp á barminn þar sem hann er lægstur. Erfiðari leið er að fara beint í suður frá Gljúfrastofu að gatnamótum við Tófugjá, þar sem beygt er til austurs og klifrað upp vegginn með því að styðja sig við kaðal. Síðan er gengið eftir austurbarmi Ásbyrgis suður að Klöppum, sunnan Ásbyrgis. Frá Klöppum er gengið austur yfir heiðina að Jökuslá, að Kúahvammi, þaðan meðfram gljúfrunum norður að Gilsbakka og framhjá Ási þar til komið er að upphafsstað. Hægt er að stytta leiðina í ~ 9 km með því að fara tilbaka sömu leið frá Klöppum.

Tengdar gönguleiðir

Á7
Jökulsárgljúfur, Ásbyrgi, Klappir

Klappir

9 km fram og til baka
2,5-3 klst
Krefjandi

Leiðin býður upp á stórkoslegt útsýni yfir Ásbyrgi og stórbrotna skessukatla í Klöppum. Upphaf þessarar gönguleiðar er hið sama og leið Á-8 og er því vísað til leiðarlýsingar þar. Hér er hins vegar snúið við á Klöppum og sama leið gengin til baka.

Á9

Kvíahringur

17 km hringleið
6-7 klst
Krefjandi

Hér gefst færi á heilsdagsgöngu um fjölbreytt landslag Ásbyrgis og Ásheiðar þar sem upplifa má stórkostlegt útsýni og sjá einstakar minjar um hamfarahlaup Jökulsár.

L1, L2, L3

Ásbyrgi - Dettifoss

32 km ein leið
2 dagar
Krefjandi leið

Milli Ásbyrgis og Dettifoss liggur um 32 km gönguleið eftir Jökulsárgljúfrum. Fjölbreytileiki landslagsins er einstakur og andstæður í umhverfinu fanga augað við hvert fótspor: hrikaleg gljúfur, kyrrlátar tjarnir, tærar lindir, úfin jökulsá, gróskumikill skógur og grýttur melur.
Það þarf að ætla sér tvo daga í gönguna og þá er miðað við náttstað í Vesturdal. Einungis er leyft að tjalda á tjaldsvæði í Vesturdal og við Dettifoss.

Kortabæklingur Jökulsárgljúfra og kort af Ásbyrgi