Beint í efni

Gjallandi

Fossinn Gjallandi er sá efsti í Skjálfandafljóti. Fljótið á upptök sín í Vatnajökli úr jökulám sem renna úr Vonarskarði og undan Bárðarbungu meðal annars Rjúpnabrekkukvísl. Skjálfandafljót rennur norður milli Sprengisands og Ódáðahrauns, í gegnum Bárðardal og út í Skjálfanda. Fleiri fossar fljótsins eru t.d. Aldeyjarfoss, Hrafnabjargarfoss og Goðafoss. Skjálfandafljót er jökulskotin bergvatnsá og því getur fossinn ýmist verið tær, mjólkurlitaður eða móbrúnn. Þegar ekið er um víðátturnar norðan Tungnafellsjökuls er fossinn rétt sunnan við Dyngjufjallaleið og er vel þess virði fyrir ferðalanga þar að taka á sig lítinn krók til að berja hann augum. Í Gjallanda var áður steinbogi og var hann því af sumum nefndur Steinbogafoss. Eina myndin sem til er af steinboganum er frá sumrinu 1952 en ekki er vitað með vissu hvenær boginn hrundi.