Beint í efni

Vonarskarð: Framtíðarskipulag náttúruverndar og innviða

Hjá Vatnajökulsþjóðgarði stendur fyrir dyrum vinna við framtíðarskipulag náttúruverndar og innviða innan landslagsheildarinnar í Vonarskarði, í tengslum við endurskoðun stjórnunar- og verndaráætlunar þjóðgarðsins.

Kort af svæðinu

Hér má nálgast kort af svæðinu við Tungafellsjökul og Vonarskarð

Samhliða staðfestingu þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra á núgildandi stjórnunar- og verndaráætlun, frá 2013, fékk stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs eftirfarandi tilmæli:

„Líkt og við afgreiðslu á stjórnunar-og verndaráætlun þjóðgarðsins 2011 vill ráðherra beina þeim tilmælum til stjórnar þjóðgarðsins um frekari skoðun á ákveðnum atriðum, samtímis því að staðfesta áætlunina. Í þessu tilviki eru það málefni útivistar og náttúruverndar í Vonarskarði, þar sem fram hafa komið tillögur að breytingum sem kalla á umræður og ítarlega yfirferð. Ráðuneytið beinir þeim tilmælum til stjórnar þjóðgarðsins að skoða þetta sérstaklega og hafa samstarf við helstu hagsmuna- og umsagnaraðilar um málefni Vonarskarðs í því skyni að tryggja að sem best sé haldið á hagsmunum náttúruverndar og útivistar. Þannig vill ráðuneytið halda áfram þeirri viðleitni að skapa sem mesta sátt um þjóðgarðinn.”

Einnig koma fram tilmæli í bréfi ráðherra vegna nýrra ákvæða í stjórnunar-og verndaráætlun um að opna aðgengi að Vonarskarði fyrir hestaumferð og skoða hvort breyta eigi verndarflokkun á svæðum í Vonarskarði til að tryggja enn frekar verndun viðkvæmra svæða.

Vinnuhópur á vegum þjóðgarðsins sem starfaði á fyrri hluta árs 2019 fór yfir þau skjöl sem fyrir liggja í málinu auk þess sem leitað var eftir lögfræðiáliti. Niðurstaða hópsins var að framsetning efnislegra raka og formlegt opið samráð hefði getað verið markvissara þótt fulltrúar hagsmunaðila hafi haft aðgang að því að koma sínum sjónarmiðum að bæði í svæðisráði og stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs.

Í framhaldi af niðurstöðu vinnuhópsins fór af stað vinnuferli þar sem fyrst var leitað álits þeirra aðila sem eru, lögum samkvæmt, umsagnaraðilar um stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðsins auk lykilstofnana sem fara með skipulagsmál, landgræðslu, grunnrannsóknir og öryggismál. Þar næst var haft samband við helstu hagsmunaaðila s.s. sveitarfélög og félög á sviði útivistar og náttúruverndar og beðið um þeirra álit. Stuðst var við lista þjóðgarðsins yfir mögulega hagsmunaaðila, en ekki er hægt að ábyrgjast að hann sé tæmandi yfirlit yfir þá sem láta sig varða málefni náttúruverndar og útivistar. Í bréfi til hagsmunaaðila (sjá hér að neðan) eru talin upp atriði sem æskilegt er að fá álit sem flestra á.

Bréf til hagsmunaaðila 6.4.2020

Frestur til að skila ábendingum og athugasemdum er liðinn og hér má sjá þær umsagnir sem bárust auk annarra gagna:

Í gildandi stjórnunar- og verndaráætlun frá 2022 er eftirfarandi kafli um Vonarskarð í kafla 9.1.5:

Forsendur:

Vonarskarð liggur milli Vatnajökuls og Tungnafellsjökuls og stendur í um 900-1300 m hæð yfir sjávarmáli. Þar er háhitasvæði og innan þess fjögur jarðhitasvæði. Þar er meðal annars kolsýruhverasvæði með hátt verndargildi og þar finnast einnig sjaldgæfar háplöntu- og mosategundir. Í skýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands er verndargildi svæðisins metið hátt vegna þess að þar er fjölbreytileg og upprunaleg jarðfræði auk fágætra og fjölbreytilegra jarðhitaummerkja. Þar myndar gróður fágæta og upprunalega heild. Svæðið er fremur viðkvæmt og þarf ekki mikla umferð til að valda varanlegri röskun á svæðinu.

Markmið:

Að vernda sérstæðar jarðmyndanir og gróður.

Vonarskarð verði vettvangur göngufólks án truflunar frá vélknúnum ökutækjum.

Skilmálar:

Umferð vélknúinna ökutækja í gegnum Vonarskarð er óheimil milli Svarthöfða og Gjóstuklifs nema á frosinni og snævi þakinni jörð í samræmi við almenna skilmála um vetrarakstur.

Vetrarakstur er þó ávallt óheimill á og við jarðhitasvæði í Snapadal.

Hestaferðir í gegnum Vonarskarð eru háðar leyfi þjóðgarðsvarðar á vestursvæði.

Umferð reiðhjóla er ekki leyfð í Vonarskarði.

Stýra skal umferð göngufólks um hverasvæðið með tilliti til öryggis gesta og verndunar jarðmyndana.